ÍBV vann nokkuð öruggan 35:27-sigur á Þór frá Akureyri er liðin mættust í úrvalsdeild karla, Olísdeildinni, í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag.
Heimamenn sigu nokkuð snemma fram úr í Vestmannaeyjum og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 19:15. Kári Kristján Kristjánsson reyndist óviðráðanlegur á línunni, skoraði átta mörk úr níu skotum, þar af tvö úr vítum. Ihor Kopyshynskyi var markahæstur Þórsara með sjö mörk úr tíu skotum en varnarleikur liðsins var ekki nægilega góður og markvarslan eftir því. Þeir Jovan Kukobat og Arnar Þór Fylkisson vörðu ekki nema þrjú skot sín á milli í öllum leiknum.
Hákon Daði Styrmisson skoraði fimm mörk úr fimm skotum fyrir ÍBV og Arnór Viðarsson var einnig með fimm mörk fyrir heimamenn. ÍBV er nú með 17 stig í 4. sæti deildarinnar en Þórsarar eru áfram í fallsæti með sex stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.