Framarar sterkari á lokamínútunum

Lárus Helgi Ólafsson átti mjög góðan leik fyrir Framara.
Lárus Helgi Ólafsson átti mjög góðan leik fyrir Framara. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Markvörðurinn Lárus Helgi Ólafsson átti mjög góðan leik fyrir Fram þegar liðið heimsótti ÍR í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Austurberg í Breiðholti í kvöld.

Lárus varði fimmtán skot og var með 40% markvörslu en leiknum lauk með sex marka sigri Fram, 29:23.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en Framarar náðu fjögurra marka forystu eftir fimmtán mínútna leik, 10:6. Liðin skiptust á að skora og var staðan 18:14, Fram í vil, í hálfleik,

Framarar leiddu með fjórum mörkum eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik, 21:17, en ÍR-ingum tókst að minnka muninn í eitt mark þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. 

Framarar voru hins vegar mun sterkari á lokamínútunum og unnu sannfærandi sigur.

Stefán Darri Þórsson og Þorgrímur Smári Ólafsson skoruðu fimm mörk hvor í liði Framara en Gunnar Valdimar Johnsen var markahæstur ÍR-inga með fjögur mörk.

Framarar eru með 16 stig í sjöunda sæti deildarinnar en ÍR er sem fyrr á botninum án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert