Adam Thorstensen er nafn sem fæstir handboltaunnendur þekkja. Adam stóð í marki Stjörnunnar í kvöld þegar hans lið lagði KA 32:27. Guttinn, sem er aðeins átján ára og tveir metrar á hæð, fór á kostum í seinni hálfleik og varði þá fjórtán skot, oft úr dauðafærum. Að sjálfsögðu var maður kvöldsins drifinn í viðtal eftir leik.
„Þetta er mitt fyrsta alvörutímabil í meistaraflokki. Ég var að æfa með ÍR en hætti í smá tíma og einbeitti mér að fótboltanum. Svo byrjaði ég aftur á fullu í haust með Stjörnunni.“
Þetta var ansi skemmtilegur leikur fyrir þig. Að vísu var engin varsla hjá þér í fyrri hálfleiknum en í þeim seinni þá varstu bara að verja hvert skotið á fætur öðru.
„Já það var ánægjulegt að koma til baka eftir dapran fyrri hálfleik. Patrekur tók mig bara út af og spjallaði við mig á rólegu nótunum. Hann vissi að ég ætti mikið inni og sagði mér það. Svo bara fór allt í gang í byrjun seinni hálfleiksins og ég fór að verja.“
Hvað nákvæmlega sagði Patrekur við þig? Þetta hafa verið einhver töfraorð.
„Þetta var bara um að ég þyrfti að rífa mig upp og að hann hefði mikla trú á mér. Hann var á jákvæðu nótunum.“
Þér gekk sérstaklega vel með hornamennina í KA og varðir bara allt frá þeim, alla vega úr hornunum.
„Það var flott að ég náði að loka alveg á þá í seinni hálfleiknum. Hornin hafa verið smá vandamál hjá mér í vetur og þess vegna var þetta extra sætt fyrir mig.“
Svo náðir þú nokkrum vörslum þar sem boltinn hrökk út að teig og KA-menn fengu annað færi strax. Er ekki svekkjandi að fá svoleiðis mörk á sig?
„Það getur verið helvíti pirrandi þegar samherjarnir ná ekki frákastinu. Ég get samt ekki skammað þá neitt, var sjálfur í skuld eftir fyrri hálfleikinn.“
En tímabilið heilt yfir hjá þér. Ertu ánægður með það?
„Ég get eiginlega ekki sagt annað. Þó hefur þetta verið dálítið mikið upp og niður, sem verður að teljast eðlilegt þegar maður er svona reynslulítill. Það er bara að halda áfram og vera á jákvæðu nótunum.“
Stjarnan er núna í hörkubaráttu 7-8 liða um að ná sem hæst í töflunni fyrir úrslitakeppnina. Hvert stefnir liðið? Er ákveðið sæti á markmiðalistanum?
„Bara að komast eins ofarlega í töfluna og við getum. Svo viljum við gera eitthvað stórt í úrslitakeppninni. Þetta er mikið af leikjum og mikið álag en við stefnum hátt.“
Þú ert kornungur og þolir eflaust það álag sem er á liðunum í þessum leikjatörnum. Hvað segja eldri og þyngri menn í liðinu. Kvíða þeir kannski þessum törnum?
„Nei, það held ég ekki. Allir eru bara ánægðir með að geta bara spilað. Þá taka menn bara því sem er í boði og enginn er að kvarta,“ sagði Adam sposkur að lokum.