Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta, segir að það hafi verið mjög óþægileg tilfinning að fá hótunarbréfið sem barst honum í pósti á dögunum.
Alfreð segir í viðtali við Akureyri.net að Þjóðverjar taki hótunina mjög alvarlega og málið sé í höndum lögreglu sem til þessa hafi ekki verið sérlega sýnileg þar sem hann býr. „Nú keyra þeir hægt og rólega framhjá okkur nokkrum sinnum á dag! Það er einn af kostunum við Þýskaland að þeir taka svona mál mjög alvarlega,“ segir Alfreð við Akureyri.net.
Í bréfinu var því hótað að ef hann hætti ekki störfum sem landsliðsþjálfari kæmu einhverjir heim til hans og „sjáum þá til hvað verður“, eins og það var orðað. Bréfið hófst á þessum orðum: „Við erum öll þýsk og viljum líka að landsliðsþjálfarinn sé Þjóðverji.“