Fór á kostum í Norður-Makedóníu

Ómar Ingi Magnússon átti stórleik í Norður-Makedóníu.
Ómar Ingi Magnússon átti stórleik í Norður-Makedóníu. AFP

Ómar Ingi átti stórleik fyrir Magdeburg þegar liðið heimsótti Eurofarm Pelister í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik í Norður-Makedóníu í kvöld.

Ómar Ingi gerði sér lítið fyrir og skoraði tíu mörk úr ellefu skotum í öruggum 32:24-sigri Magdeburg.

Magdeburg náði mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik en þýska liðið leiddi með sex mörkum í hálfleik, 15:9.

Magdeburg komst níu mörkum yfir snemma í síðari hálfleik, 18:9, og var með örugga forystu allt til enda.

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla sem hann varð fyrir um síðustu helgi.

Ómar Ingi var markahæsti leikmaður vallarins og er þýska liðið í ansi þægilegri stöðu fyrir síðari leik liðanna í Þýskalandi eftir viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert