Líklega með slitið krossband

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Íslands.
Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Íslands. Ljósmynd/Robert Spasovski

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram og íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, er að öllum líkindum með slitið krossband.

Þetta staðfesti hún í samtali við Vísi en Steinunn meiddist illa á hné í leik Norður-Makedóníu og Íslands í undankeppni HM í Skopje í Norður-Makedóníu á föstudaginn.

Leiknum lauk með 24:17-sigri Norður-Makedóníu en Steinunn gat ekki tekið þátt í hinum tveimur leikjum Íslands í undankeppninni þar sem  Ísland vann sannfærandi sigra gegn Grikklandi, 31:19, og Litháen, 33:23.

Með sigrinum tveimur tryggði Ísland sér sæti í umspili um laust sæti á HM 2021 sem fram fer á Spáni í desember en það verður að teljast afar ólíklegt að Steinunn geti þátt í umspilsleikjunum tveimur gegn Slóveníu, 16. eða 17. apríl og 20. eða 21. apríl.

„Ég get ekki stigið í fótinn nema að haltra og er alveg kvalin ennþá. Ég finn að það er eitthvað að angra mig. Það bendir allt til þess að krossbandið sé farið. Ég á eftir að fá það staðfest en ég undirbý mig fyrir það,“ segir Steinunn í samtali við Vísi.

Steinunn er nú í sóttkví eftir heimkomuna til Íslands en fer í myndatöku á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert