Elvar Ásgeirsson átti stórleik fyrir Nancy þegar liðið fékk Angers í heimsókn í frönsku B-deildinni í handknattleik í kvöld.
Leiknum lauk með 28:24-sigri Nancy en Elvar skoraði sjö mörk úr ellefu skotum og var markahæsti leikmaður vallarins.
Nancy er með 26 stig í öðru sæti deildarinnar, líkt og Saran, Cherbourg og Pontault. Sex efstu lið deildarinnar fara í umspil um laust sæti í frönsku úrvalsdeildinni en liðin í 3.-6. sæti mætast fyrst í umspili um laust sæti í undanúrslitum umspilsins þar sem liðin í efstu tveimur sætunum deildarinnar bíða.
Þá varði Grétar Atli Guðjónsson níu skot í marki Nice þegar liðið tapaði með eins marks mun gegn Cherbourg á heimavelli.
Grétar Atli var með 23% markvörslu en Nice er í sjöunda sæti deildarinnar með 18 stig, tveimur stigum minna en Massy Essonne.