Handknattleiksdeild Vængja Júpíters hefur sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við deilur liðsins við lið Harðar frá Ísafirði, sem benti á að kennitala Vængja Júpíters hafi verið afskráð og að því væri liðið ekki með keppnisleyfi hjá HSÍ. Formaður Vængja Júpíters segir kennitöluna hins vegar hafa verið ólöglega afskráða, hún hafi því ekki verið afskráð og sé þar með enn góð og gild.
Forsögu málsins rekur Einar Ingi Kristinsson, formaður handknattleiksdeildar félagsins, í yfirlýsingu fyrir hönd deildarinnar. Þar segir meðal annars:
„Þann 22. febrúar mættust Vængir Júpíters, hér eftir VJ og Hörður í leik í Grill 66 deild karla. Eftir 13 mín. leik kom í ljós að lið Harðar var að spila á leikmanni sem var ekki skráður á skýrslu og í kjölfar var leikmanni vikið af velli og sýnt rautt spjald. Eftir leik þá gerði bæði eftirlitsmaður og HVJ athugasemd við þetta.
Það er brot á reglum um mótamál að spila með óskráðan leikmann og skv. reglum tapast sá leikur 10-0 ef slíkt gerist. Það eru fordæmi fyrir máli sem þessu á síðustu árum og nú síðast 2017 þegar Gróttu var dæmdur 10-0 sigur gegn Stjörnunni í meistaraflokki kvenna.“
Einar Ingi heldur áfram: „Í yfirlýsingu Harðar þann 22. febrúar er fullyrt að ritari leiksins hafi fengið afhentan leikmannalista frá forsvarsmanni Harðar fyrir leik. Svo var ekki raunin og var það í raun starfsmaður Harðar sem sá um að fylla út hlut Harðar á leikskýrslunni. Í tvígang var starfsmönnum Harðar bent á að aðeins 15 leikmenn væru á skýrslu og í bæði skiptin sögðu þeir að það ætti að vera þannig.
Skýrslan var staðfest af starfsmanni A fyrir leik og einnig bætti Hörður við 16. leikmanninum fyrir leik en það var ekki umræddur leikmaður sem skv. forsvarsmönnum Harðar á að hafa vantað á leikskýrsluna. Allt þetta var staðfest af eftirlitsmanni leiksins.“
Eina Ingi bætir því við að forsvarsmenn Harðar hafi verið ósáttir við úrskurð mótanefndar og hafi því ákveðið að kæra hann til dómstóls HSÍ.
„Í stað þess að gera annmarka á rökum úrskurðs mótanefndar þá var kæra Harðar byggð á því að kennitala HVJ hafi verið afskráð. Rök Harðar voru því þau að allir leikmenn HVJ væru ólöglegir sem og keppnisleyfið þar sem kennitalan væri ekki gild. Það kom bæði aðalstjórn VJ og HVJ í opna skjöldu að kennitalan var ekki skráð.
Strax og okkur var bent á þetta með kæru Harðar var lögð inn krafa um leiðréttingu með aðstoð Ríkisskattstjóra. Í ljós kom að félagið hafði verið ólöglega afskráð þar sem ekki var haldin aðalfundur þess efnis né lá fyrir samþykki meirihluta aðalstjórnar félagsins. Í lögum VJ stendur að ef afskrá á félagið þarf meirihluti stjórnar að samþykkja ákvörðunina. Þar sem ekki var staðið rétt að afskráningunni var kennitalan í raun ekki afskráð og kennitalan því góð og gild og rök Harðar stóðu því ekki.
Einnig kemur hvergi fram í reglum HSÍ um keppnisrétt að gild kennitala sé þörf til að fá keppnisrétt. VJ er skráð félag hjá ÍSÍ og hafa verið með lið síðustu 12 ár. Í dómnum segir jafnframt; „Þá hafa aðildarsambönd ÍSÍ, sem og ÍSÍ, ekki gert strangar kröfur hvað varðar skráningar aðildarfélaga og hefur félögum sem ekki hafa kennitölur verið heimiluð þátttaka innan ÍSÍ og sérsambanda“,“ segir í yfirlýsingunni.
Að lokum segir Einar Ingi það því vera ljóst að starfsemi Vængja Júpíters standist allar reglur. „Okkar einlæga ósk er að HSÍ fái frið til að vinna þetta mál en við gátum ekki setið á okkur lengur eftir að hafa heyrt af ósannindum um málið eins og um sannleik væri að ræða. Af okkar hálfu er þessu máli lokið enda hefur HSÍ, Ríkisskattstjóri og ÍSÍ staðfest að starfsemi okkar stenst allar reglur.“
Yfirlýsingu Vængja Júpíters má lesa í heild sinni á Facebook-síðu liðsins.