Allt okkar mótahald í uppnámi

Framkvæmdastjórinn Róbert Geir Gíslason ásamt Guðmundi B. Ólafssyni, Guðmundi Þórði …
Framkvæmdastjórinn Róbert Geir Gíslason ásamt Guðmundi B. Ólafssyni, Guðmundi Þórði Guðmundssyni og Gunnari Magnússyni á blaðamannafundi A-landsliðs karla í febrúar 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum bara að slökkva á öllu eins og staðan er núna og munum svo meta framhaldið í kjölfarið af því,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Öll keppni í íþróttum hér á landi mun leggjst af næstu þrjár vikurnar en þetta var tilkynnt á blaðamannafundi ríkistjórnararinnar og almannavarna í Hörpu í dag en öllum leikjum innan sambandsins hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma.

„Við gerðum okkur grein fyrir því að það væri tíðinda að vænta þegar boðað var til fjölmiðlafundar í morgun en þessi ákvörðun kom okkur í opna skjöldu.

Það er ljóst að við þurfum að teikna upp einhverjar sviðsmyndir í framhaldinu af þessum fundi en það segir þig sjálft að það er von á einhverjum breytingum hjá okkur,“ sagði Róbert.

Íslenska kvennalandsliðið mætir Slóveníu í umspili um laust sæti á …
Íslenska kvennalandsliðið mætir Slóveníu í umspili um laust sæti á HM 2021 á Spáni seinni hluta aprílmánaðar. Ljósmynd/Robert Spasovski

Ekki sérfræðingur í sóttvörnum

Þrátt fyrir óvænta ákvörðun stjórnvalda ber formaðurinn fullt traust til yfirvalda .

„Það er algjörlega ótímabært fyrir mig að koma með einhverjar spár um það hvert framhald deildakeppnanna verður. Keppnisbannið er í gildi næstu þrjár vikurnar og þá erum við komin inn í verkefni hjá íslenska kvennalandsliðinu. Það er ljóst að það verður ekkert spilað fyrr en í lok apríl kvennamegin, miðað við þetta, og úr þessu.

Við þurfum líka bara að sjá hvernig næstu tvær vikur verða og hvort þessu banni verður eitthvað framlengt. Það er alveg ljóst að við erum í uppnámi með allt okkar móthald, það segir sig bara sjálft.

Ég ætla ekki að taka svo hart í árina að segja að ég sé ósáttur með ákvörðun stjórnvalda enda eru þau með marga sérfræðinga á sínum snærum á meðan ég er það ekki, í þessum málum. Þau hafa forsendurnar fyrir framan sig og við þurfum bara að treysta þeim.“

Haukar eru með öruggt forskot í úrvalsdeild karla.
Haukar eru með öruggt forskot í úrvalsdeild karla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert sem liggur á

Ákvörðun um framhald deildakeppnanna hér á landi verður tekin í næstu viku.

„Það er ekkert sem liggur á að taka ákvörðun um framhaldið einn tveir og þrír. Við vitum að við erum ekki að fara æfa eða spila handbolta næstu þrjár vikurnar. Við munum funda í næsta viku og þá verður tekin ákvörðun um framhaldið. Tíminn er knappur og allt okkar plan miðaði að því að við værum að klára okkar keppnir í kringum 17. júní.

Það er spilað mjög þétt, sérstaklega karlamegin, og mörgum finnst of þétt leikið. Þegar þú bætir fjögurra vikna stoppi inn í þetta líka er ljóst að við klárum ekki mótið í óbreyttri mynd. Hvað við gerum þarf tíminn að leiða í ljós en það er ekki í umræðunni að slaufa mótinu eins og staðan er núna.

KA/Þór er með eins stigs forskot í efsta sæti úrvalsdeildar …
KA/Þór er með eins stigs forskot í efsta sæti úrvalsdeildar kvenna. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Margar leiðir í boði

HSÍ standa nokkrir kostir til boða þegar kemur að því að ljúka tímabilinu í handboltanum.

„Við getum klárað deildakeppnina og bikarkeppnina og sleppt úrslitakeppninni. Við gætum líka stoppað deildina núna og farið beint í úrslitakeppnina. Við gætum líka minnkað úrslitakeppnina og spilað hana á færri liðum. Það eru margar leiðir sem við getum farið og valið.

Það er erfitt að fabúlera um hvaða leið er hentugust akkúrat núna því við þurfum bara að sjá hvernig málin þróast.

Það er alveg ljóst að það verður alltaf einhver ósáttur, sama hvað við gerum, og við þurfum fyrst og fremst að sjá hvaða leiðir eru færar fyrir okkur,“ bætti Róbert við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert