Aron fer á Ólympíuleikana

Aron Kristjánsson hefur tekið við þjálfun Barein á nýjan leik.
Aron Kristjánsson hefur tekið við þjálfun Barein á nýjan leik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka í handknattleik, hefur verið ráðinn þjálfari Barein á nýjan leik.

Þetta staðfesti handknattleikssamband Barein á samfélagsmiðlum sínum í dag en Aron tekur við þjálfun liðsins af Halldóri Jóhanni Sigfússyni.

Aron þekkir vel til hjá Barein en hann var ráðinn þjálfari liðsins árið 2018 og kom liðinu meðal annars á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 en hætti með liðið til þess að einbeita sér að þjálfun Hafnarfjarðarliðsins.

Ólympíuleikunum var frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins og því getur Aron stýrt liðinu á mótinu en alls verða fjórir íslenskir þjálfarar á leikunum í sumar.

Aron með Barein, Alfreð Gíslason með Þýskaland, Dagur Sigurðsson með Japan og Þórir Hergeirsson með norska kvennalandsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert