Daníel Freyr Andrésson varði tólf skot í marki Guif þegar liðið tapaði gegn Sävehof á heimavelli í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum sænsku úrslitakeppninnar í handknattleik í kvöld.
Daníel var með 29% markvörslu en leiknum lauk með 31:28-sigri Sävehof eftir framlengdan leik.
Guif náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, 8:3, en Sävehof tókst að laga stöðuna og var staðan 11:8, Guif í vil, í hálfleik.
Guif var með yfirhöndina í síðari hálfleik og leiddi með þremur mörkum þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 20:17.
Staðan var 23:22, Guif í vil, þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka en Elias Á Skipagötu jafnaði metin fyrir Sävehof þegar tvær sekúndur voru til leiksloka.
Í framlengingunni komst Sävehof þremur mörkum yfir eftir fimm mínútna leik, 28:25, og Guif tókst ekki að koma til baka eftir það.
Sävehof leiðir 2:0 í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast áfram í undanúrslit.