Oddur Gretarsson landsliðsmaður í handknattleik átti stórleik í kvöld þegar lið hans Balingen lagði Melsungen, undir stjórn Guðmundar Þ. Guðmundssonar landsliðsþjálfara að velli, 25:24, á útivelli í háspennuleik í Þýskalandi.
Oddur skoraði níu mörk úr tólf skotum fyrir Balingen í leiknum, eitt þeirra úr vítakasti. Lið hans komst með sigrinum þremur stigum frá fallsæti deildarinnar en Balingen er í sextánda sæti af tuttugu liðum með 13 stig. Melsungen er í ellefta sæti með 21 stig.
Gunnar Steinn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Göppingen sem vann heimasigur á Minden, 33:29. Göppingen er nú í fimmta sæti með 29 stig.