Handknattleikssamband Evrópu, EHF, samþykkti í gær breytingu á fjölda þeirra leikmanna sem mega vera í keppnishópi landsliða á Evrópumótum. Áður máttu einungis 16 leikmenn vera í hóp en frá og með lokakeppni EM karla í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á næsta ári mega 20 leikmenn vera í keppnishóp hvers landsliðs.
Handbolti.is greinir frá. Þessar reglur voru teknar upp af Alþjóðahandknattleikssambandinu, IHF, fyrir heimsmeistaramótið í Egyptalandi í janúar og þóttu gefast það vel að EHF ákvað að láta slag standa og breyta sínum reglum sömuleiðis.
Með breytingunum bindur framkvæmdastjórn EHF vonir við að hægt verði að dreifa álagi betur á milli leikmanna en áður hefur verið.
Breytingarnar ná sömuleiðis til kvenna og verða 20 leikmenn leyfðir í keppnishóp þeirra landsliða sem taka munu þátt í lokakeppni EM kvenna í desember 2022 í Slóveníu, Norður-Makedóníu og Svartfjallalandi.