„Algjört lykilatriði“

Arnar Pétursson.
Arnar Pétursson. Ljósmynd/Robert Spasovski

Íslenska kvenna­landsliðið í hand­knatt­leik fékk í gær undanþágu til að koma saman og æfa fyrir leikina gegn Slóveníu í umspili um laust sæti á HM 2021. Arnar Pétursson, þjálfari landsliðsins, segir að það hafi verið lykilatriði að fá að byrja strax að æfa.

Íþróttastarf á landinu liggur meira eða minna niðri vegna hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við kórónuveirunni en heilbrigðisráðuneytið gaf þó landsliðinu undanþágu. Arnar tilkynnti í kjölfarið æfingahóp sem kemur saman til æfinga í dag.

Þar vakti athygli að Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er í hópnum, en hún lagði skóna á hilluna fyrir tæpu ári en sneri svo aftur í Val í vetur og spilaði tvo leiki áður en Íslandsmótið var stöðvað. „Við fengum Önnu til að taka þátt í þessu með okkur því hún hefur reynslu af þessu, hefur spilað á lokamótum áður og hefur mikinn karakter,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is í dag.

Þá mun reynsla Önnu vonandi hjálpa liðinu sem verður án fyrirliðans Steinunnar Björnsdóttur, sem er með slitið krossband í hægra hné. „Við erum með 16 af þeim 17 sem við völdum fyrir þessa leiki úti í Norður-Makedóníu, það eru allir klárir fyrir utan auðvitað Steinunni sem er dottin út. Hún er mikill karakter og það er söknuður að henni en Anna getur vonandi hjálpað okkur að fylla upp í það skarð.“

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik Vals og ÍBV í febrúar.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik Vals og ÍBV í febrúar. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV, er með sprungu í sköfl­ungi og bólgu í vöðva og í gifsi sem stendur. Hún er þó í hópnum og Arnar vonast eftir kraftaverki. „Sunna er einnig með okkur, þótt hún sé enn í gifsi en við vonumst eftir kraftaverki þar.“

Þá koma þær Andrea Jacobsen, sem spilar með Kristianstad í Svíþjóð, og Díana Dögg Magnúsdóttir, hjá Sach­sen Zwic­kau í Þýskalandi, einnig inn í hópinn en þær voru ekki með liðinu í forkeppninni í Norður-Makedóníu. „Andrea lauk leik um helgina og er á leiðinni heim. Hún verður klár fljótlega eftir páska og kemur á æfingar með okkur. Díana kemur sennilega ekki til liðs við okkur fyrr en úti í Slóveníu vegna sóttvarnareglna.“

Arnar segir enn fremur að það hafi verið gríðarlega mikilvægt að fá þessa undanþágu, enda ærið verkefni fram undan.

„Það var algjört lykilatriði að geta byrjað að æfa. Við erum að fara mæta gríðarlega sterku og vel mönnuðu liði. Það eru þarna til dæmis fjórir leikmenn að berjast með sínum liðum í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Ef við ætlum að ná úrslitum þá þurfum við að hitta á okkar besta dag. Við gerum það ekki öðruvísi en að geta æft almennilega. Það er frábært að við fáum æfa, við erum þakklát fyrir það og munum fylgja öllum þeim reglum sem ætlast er til að við fylgjum. Það hefði verið enn erfiðara að mæta sterku slóvensku liði annars,“ sagði Arnar Pétursson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert