Anton Rúnarsson handknattleiksmaður úr Val er á leið til Þýskalands í sumar þar sem hann gengur á ný til liðs við B-deildarfélagið Emsdetten.
Handbolti.is skýrir frá þessu í dag og segir að samkvæmt heimildum hafi Anton þegar skrifað undir þriggja ára samning við þýska félagið en hann lék áður með því á árunum 2014 til 2016.
Það er þó alls ekki öruggt að Emsdetten verði enn í B-deildinni þegar næsta tímabil hefst. Liðið er í 16. sæti af 19 liðum í B-deildinni og aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Anton er markahæsti leikmaður Vals á yfirstandandi keppnistímabili og hefur skorað 75 mörk í fjórtán leikjum liðsins í Olísdeild karla.