Rhein-Neckar Löwen fór upp í 34 stig og upp að hlið toppliðanna Magdeburg og Flensburg með 26:25-sigri á Melsungen á útivelli í Íslendingaslag í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld.
Ýmir Örn Gíslason skoraði með eina skoti sínu í leiknum fyrir Löwen en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað hjá Melsungen, sem Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar. Melsungen er í áttunda sæti með 23 stig.
Löwen hefur leikið 23 leiki, einum leik meira en Magdeburg og fjórum leikjum meira en Flensburg.
Oddur Gretarsson skoraði fjögur mörk úr fimm skotum og lagði upp tvö mörk í 35:24-heimasigri Balingen á Nordhorn í fallslag.
Balingen er nú með 15 stig í 16. sæti, þremur stigum á undan Nordhorn sem er í síðasta fallsætinu.