Þórir Hergeirsson fer með lið sitt, norska kvennalandsliðið í handknattleik, á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar eftir harða baráttu í undankeppni sem hann vonast þó til að taka aldrei aftur þátt í.
„Það er enginn tími fyrir undankeppni Ólympíuleikanna hjá besta handboltafólkinu í dag, það þarf að úthluta löndum þátttökurétti á leikana út frá árangri á Evrópumeistaramótinu og öðrum álfukeppnum,“ sagði Þórir í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2.
Þá bendir Þórir á að lið hafi getað tapað leikjum viljandi á síðasta heimsmeistaramóti til að fá þægilegri riðil í undankeppninni. „Ein af ástæðunum fyrir því að hætta þessari undankeppni er að lið vita hverjum þau geta mætt fyrirfram. Þá geta lið gert eins og sum gerðu á HM í Japan og tapað ákveðnum leikjum til að reyna að lenda í þægilegri riðli í undankeppninni. Það er gríðarlega ámælisvert.“
Þórir og norska landsliðið verða með Angóla, Suður-Kóreu, Svartfjallalandi, Hollandi og Japan í A-riðli á Ólympíuleikunum í sumar.