Viggó Kristjánsson átti góðan leik fyrir Stuttgart er liðið varð að sætta sig við 28:33-tap fyrir Kiel á útivelli í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld.
Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði sex mörk og lagði upp tvö til viðbótar. Aðeins Jerome Müller skoraði meira fyrir Stuttgart eða sjö mörk. Stuttgart er í 13. sæti deildarinnar með 21 stig en Kiel er á toppnum með 35 stig.
Viggó er í öðru sæti yfir leikmenn sem hafa skorað mest í deildinni, eða 153 mörk. Ómar Ingi Magnússon er í fjórða sæti með 143 mörk og Bjarki Már Elísson í fimmta sæti með 138 mörk.