„Öskraði bara nei nei nei“

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með landsliðinu á HM í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með landsliðinu á HM í Egyptalandi í janúar. AFP

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður Íslands í handknattleik og leikmaður Magdeburg í Þýskalandi, fór úr axlarlið á dögunum í leik með þýska liðinu.

Leikstjórnandinn gekkst undir aðgerð á öxl í Sviss á dögunum og má búast við því að hann verði frá keppni næstu mánuðina.

Gísli er nú staddur á Íslandi en hann ræddi meiðslin við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í dag.

„Ég man ekkert mikið eftir sársaukunum þegar ég horfi til baka en ég man eftir því að lenda á gólfinu,“ sagði Gísli.

„Ég sit svo á gólfinu og ég man mjög vel eftir augnablikinu þegar ég átta mig á því að öxlin er að renna úr lið. 

Ég öskra bara nei nei nei og svo heyri ég smellinn. Þá kom þetta sjokk og ég fer í raun bara í algjört sjokk.

Vonbrigðin helltust yfir mig og mitt allra versta augnablik á ferlinum því þetta var að gerast í annað sinn.

Ég var búinn að leggja mikið á mig til þess að koma til baka en nú er ég búinn í þriðju aðgerðinni.

Það tekur á andlega að fara í þrjár axlaraðgerðir á tveimur árum en ég er tilbúinn að takast á við þetta og er með óendanlegan stuðning á bakinu,“ sagði Gísli meðal annars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert