Dönsku meistararnir Aalborg og spænsku meistararnir Barcelona hafa í dag formlega staðfest félagaskipti Arons Pálmarssonar sem flytur frá Barcelona til Danmerkur í sumar og hefur skrifað undir þriggja ára samning.
„Það er gríðarlega stórt fyrir okkur að geta kynnt til sögunnar leikmann í gæðaflokki Arons. Hann er einn af allra bestu handboltamönnum heims og við erum afar stolt yfir því að fá hann til Aalborg. Ég ber að sjálfsögðu miklar væntingar í brjósti til þess að hann geti hjálpað okkur til að ná enn lengra og ná okkar metnaðarfullu markmiðum,“ segir Jan Larsen, stjórnarformaður Aalborg Håndbold, á heimasíðu félagsins.
Þar er Aron kynntur til leiks undir fyrirsögninni: Heimsstjarna kemur til Aalborg Håndbold
Á heimasíðu Barcelona er fjallað um brottför Arons og sagt að hann búinn að vera og sé enn lykilmaður í leikkerfi Xavi Pascual þjálfara liðsins. Þótt hann sé fyrst og fremst leikstjórnandi hafi hann líka spilað vel í stöðu skyttu vinstra megin undanfarin tvö ár. Aron sé búinn að vinna samtals nítján titla með félaginu á þessum fjórum árum og hafi skorað 362 mörk í 165 leikjum fyrir félagið.
Aron er að ljúka sínu fjórða keppnistímabili með Barcelona og vann sinn fjórða spænska meistaratitil með liðinu í gær en hann kom til félagsins frá Veszprém í Ungverjalandi árið 2018.