Íslendingaliðin í undanúrslit

Ómar Ingi Magnússon fór á kostum í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon fór á kostum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Ómar Ingi Magnússon átti stórleik fyrir Magdeburg þegar liðið vann átta marka sigur gegn Kristianstad í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik í Magdeburg í kvöld.

Leiknum lauk með 39:31-sigri Magdeburg en Ómari Ingi gerði sér lítið fyrir og skoraði níu mörk í leiknum og var markahæsti leikmaður vallarins.

Magdeburg leiddi með ellefu mörkum í hálfleik, 23:12, en Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad og Teitur Örn Einarsson eitt mark.

Magdeburg vann fyrri leik liðanna með sex marka mun, 34:28, og er því komið áfram í undanúrslitin, samanlagt 73:59.

Þá tryggðu Ýmir Örn Gíslason og liðsfélagar hans í Rhein-Neckar Löwen sér sæti í undanúrslitum með 37:27-sigri gegn Medvedi í Þýskalandi.

Ýmir Örn komst ekki á blað hjá Löwen, sem vann einvígið samanlagt 69:60.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert