Arnar Pétursson, þjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik, var ánægður með frammistöðu liðsins eftir að það gerði 21:21-jafntefli gegn Slóveníu á Ásvöllum í síðari leik liðanna í umspili um sæti á HM 2022 í kvöld. Slóvenía fer á HM eftir 10 marka sigur í fyrri leik liðanna í Slóveníu um helgina.
„Þetta var flott frammistaða hjá stelpunum og maður er ánægður með það eftir leikinn. Auðvitað er maður sáttari með að ná jafntefli en að tapa báðum leikjunum, ég er ánægður með það.
Ég er fyrst og fremst ánægður með frammistöðuna hjá stelpunum en ég er auðvitað búinn að vera það í allan þennan tíma. Þær hafa staðið sig mjög vel og eru duglegar, viljugar og tilbúnar að fórna ansi miklu fyrir landsliðið. Það gerir mann bara þakklátan,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is að leik loknum.
Hann sagðist taka margt jákvætt úr leiknum. „Vinnusemin varnarlega var alveg til fyrirmyndar og við fengum mjög góða markvörslu líka. Svo fórum við betur í gegnum sóknarleikinn en í seinasta leik og okkur tókst svona að svara ákveðnum hlutum þar líka mjög vel. Það er margt sem ég var ánægður með.
Það er alltaf hægt að gera eitthvað betur en eins og staðan er akkúrat núna ætla ég bara að vera svolítið glaður. Þetta er búinn að vera langur tími og þetta er búinn að vera góður tími með stelpunum og ég ætla að leyfa mér að vera glaður í kvöld.“
Arnar sagði að nú þyrfti að líta til framtíðar. „Við munum þurfa að fara yfir stöðuna, við þurfum að ræða hana aðeins, hvernig við getum í raun og veru tekið næstu skref í þessu. Það strandar ekki á stelpunum, þær eru allar af vilja gerðar þannig að við þurfum að hjálpa til eins og hægt er.“
Næsta stórmót á eftir HM í desember er EM 2022, sem fer fram í nóvember á næsta ári í Slóveníu, Norður-Makedóníu og Svartfjallalandi. Ísland er þar í undanriðli með sterkum þjóðum á við Svíþjóð og Serbíu.
„Við erum með Svíum og Serbum í riðli sem eru ekkert síðri þjóðir en Slóvenía. „Við vitum að þar bíður okkar mjög erfitt verkefni en við þurfum líka að fara að horfa svolítið lengra en bara þangað. Við þurfum að móta okkur stefnu og ákveða hvaða leiðir við viljum fara í þessu,“ sagði Arnar að lokum í samtali við mbl.is