Taka við HK á þriggja ára óuppsegjanlegum samningi

Sebastian Alexandersson tekur við HK.
Sebastian Alexandersson tekur við HK. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sebastian Alexandersson og Guðfinnur Kristmannsson hafa verið ráðnir þjálfarar karlaliðs HK í handknattleik til næstu þriggja ára en á vef félagsins kemur fram að samningurinn sé óuppsegjanlegur af beggja hálfu.

Þeir  taka við liðinu í sumar af Elíasi Má Halldórssyni en hann fer þá til Noregs og tekur við kvennaliði Fredrikstad. Elías er að ljúka sínu öðru tímabili með HK sem er efst í 1. deild karla, Grill 66-deildinni, og er þar í hörðum slag við Víking um hvort liðið kemst beint upp í úrvalsdeildina.

Sebastian er þjálfari karlaliðs Fram en hættir störfum í Safamýrinni að þessu keppnistímabili loknu og Guðfinnur er þar aðstoðarþjálfari með honum.

Sebastian hefur þjálfað meistaraflokka hjá Selfossi og Stjörnunni, auk Fram, og var áður markvörður hjá m.a. ÍR, Aftureldingu, Fram og Selfossi, auk þess að spila með íslenska landsliðinu.

Guðfinnur Kristmannsson þjálfar HK með Sebastian.
Guðfinnur Kristmannsson þjálfar HK með Sebastian.

Guðfinnur lék með landsliðinu um skeið og spilaði í Svíþjóð en lék lengst af með ÍBV og einnig með ÍR. Hann þjálfaði karlalið Gróttu og hefur einnig starfað hjá ÍR, FH og Stjörnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert