Oddur Gretarsson, landsliðsmaður í handknattleik, skoraði fjögur mörk í mikilvægum 31:28-sigri Balingen á Essen í þýsku 1. deildinni í kvöld. Með sigrinum náði liðið að lyfta sér aðeins frá fallbaráttunni.
Balingen er í 16. sæti, fjórum stigum fyrir ofan Ludwigshafen í fallsæti sem á þó leik til góða. Ludwigshafen tapaði gegn Alexander Petersson og félögum í Flensburg í kvöld, 35:29. Alexander komst ekki á blað.
Þá skoraði Arnar Freyr Arnarsson eitt mark fyrir Melsungen sem mátti þola 32:26 tap á heimavelli gegn Kiel. Melsungen, sem er þjálfað af Guðmundi Þórði Guðmundssyni, situr í 9. sæti en Flensburg er í fyrsta sæti eftir 24 umferðir.