Gunnar Steinn til liðs við Stjörnuna

Gunnar Steinn Jónsson mun ganga til liðs við Stjörnuna í …
Gunnar Steinn Jónsson mun ganga til liðs við Stjörnuna í sumar og er hér kominn í treyju liðsins. Ljósmynd/Stjarnan

Leikstjórnandinn Gunnar Steinn Jónsson mun ganga til liðs við handknattleikslið Stjörnunnar að loknu yfirstandandi tímabili. Gengur hann til liðs við félagið frá þýska 1. deildarliðinu Göppingen og verður spilandi aðstoðarþjálfari Patreks Jóhannessonar.

Ljóst er að um mikinn liðstyrk er að ræða enda Gunnar Steinn með 12 ára reynslu úr atvinnumennsku og á auk þess 42 A-landsleiki að baki.

„Eftir 12 ár á Evróputúr með fjölskylduna þá tókum við nú ákvörðun um að halda heim á klakann góða. Patrekur og stjórn Stjörnunnar heilluðu mig með því verkefni sem þeir hafa hrint af stað í Garðabænum og verður spennandi að taka þátt í því.

Það var mikilvægur þáttur fyrir mig að koma að þjálfun samhliða því að taka skrefið til Íslands og byrja þannig nýjan kafla á mínum ferli með nýjum áherslum. Ég tel mig hafa margt fram að færa á því sviði og á sama tíma verður það góður skóli fyrir mig að starfa við hlið Patta,“ sagði Gunnar Steinn í samtali við heimasíðu Stjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert