Hafnfirðingar betri á endasprettinum

Úr fyrri leik liðanna í vetur.
Úr fyrri leik liðanna í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

FH saxaði á forystu Hauka á toppi Olísdeildar karla í handknattleik með 34:30-sigri á Fram í Safamýrinni í kvöld. Staðan var jöfn í hálfleik og leikurinn í raun hnífjafn fram á lokamínúturnar.

Munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk í fyrri hálfleik og staðan var jöfn í hálfleik, 13:13. FH-ingar voru svo lengst af skrefinu á undan eftir hlé þótt heimamenn væru alltaf skammt undan en gestirnir sigu fram úr á lokamínútunum. Einar Rafn Eiðsson var drjúgur fyrir Hafnfirðinga, skoraði 10 mörk úr 13 skotum. Hann klikkaði hins vegar úr báðum vítaköstum sínum.

Framarar sömuleiðis nýttu ekki tvö víti, Matthías Daðason skoraði úr tveimur af fjórum. Vilhelm Poulsen skoraði sjö mörk fyrir Fram eins og Andri Már Rúnarsson. FH er nú með 23 stig í öðru sætinu, tveimur stigum á eftir nágrönnum sínum í Haukum sem eiga leik til góða. Fram er í 7. sæti með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert