KA upp um fjögur sæti

Úr leik Gróttu og KA í dag.
Úr leik Gróttu og KA í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

KA vann 37:33-sigur á Gróttu er liðin mættust í Hertz-höllinni í Olísdeild karla í handknattleik í dag. Leikurinn var sá fyrsti á Íslandsmótinu síðan 22. mars en hlé var gert á allri keppni vegna hertra sóttvarnaaðgerða.

Tveimur leikjum í 14. umferðinni var ólokið þegar stöðva þurfti keppni í síðasta mánuði en það var leikurinn á Seltjarnarnesi í dag og svo viðureign Fram og FH í kvöld. Liðin skiptust á að hafa forystuna fyrstu 20 mínútur leiksins en norðanmenn voru tveimur yfir í hálfleik, 20:18.

Munurinn var svo mestur fimm mörk, 35:30, þegar um sex mínútur voru til leiksloka og unnu gestirnir að lokum fjögurra marka sigur. Árni Bragi Eyjólfsson átti stórleik fyrir KA, skoraði 12 mörk úr 13 skotum. Aki Egilsnes var næstur með átta mörk. Birgir Steinn Jónsson var markahæstur Gróttu með 11 mörk.

Með sigrinum fer KA upp um tvö sæti, er nú í 7. sætinu með 17 stig. Framarar eru þó stigi neðar og eiga leik til góða og geta því endurheimt sjöunda sæti með sigri gegn FH í kvöld. Grótta er í 10 sæti með tíu stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert