Handknattleiksmaðurinn Arnór Freyr Stefánsson spilar ekki meira með Aftureldingu á tímabilinu en vonast var til að hann myndi snúa aftur í síðustu leikina.
Markvörðurinn meiddist á hné í lok febrúar og tók ekki þátt í síðustu leikjum Mosfellinga áður en Íslandsmótinu var frestað vegna hertra sóttvarna. Keppni hófst aftur í dag en ljóst er að Arnór tekur ekki frekari þátt. Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, staðfesti það við handbolti.is í dag.
Afturelding er í 3. sæti Olísdeildarinnar með 19 stig eftir 15 umferðir, sex stigum frá toppliði Hauka. Arnór hefur komið við sögu í 13 leikjum til þessa en ásamt honum eru markmennirnir Bjarki Snær Jónsson og Brynjar Vignir Sigurjónsson á mála hjá félaginu. Afturelding heimsækir Stjörnuna á laugardaginn.