KA hefur óskað eftir því við Handknattleikssamband Íslands að tveimur leikjum liðsins á Íslandsmótinu verði frestað. KA vann sigur á Gróttu í Olísdeildinni í gær í fyrsta leik liðanna í mánuð eftir langt hlé á mótinu vegna kórónuveirunnar.
Norðanmenn hafa óskað eftir því að viðureignum liðsins gegn Aftureldingu að Varmá 30. apríl og gegn FH mánudaginn 3. maí verði frestað þar til eftir 9. maí. Tveir leikmenn liðsins eru í færeyska landsliðinu sem leikur þrjá landsleiki í kringum næstu mánaðamót og myndu því missa af þessum leikjum en það eru þeir Nicholas Satchwell og Allan Norðberg.
„Við teljum okkur ekki geta leikið án þessara tveggja manna og reiknum með að komið verði til móts við okkar óskir. Af þessu leiðir að leikjaálagið verður meira eftir níunda maí þegar leikmennirnir tveir verða lausir úr sóttkví eftir komu hingað til lands,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, annar þjálfara KA, í samtali við handbolti.is í dag.