Stjörnumenn upp um fimm sæti

Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði átta mörk fyrir Stjörnuna í kvöld.
Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði átta mörk fyrir Stjörnuna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Baráttan um miðja Olísdeild karla í handknattleik er hnífjöfn enda fór Stjarnan upp um fimm sæti með því að leggja Aftureldingu að velli, 35:33, í Garðabænum í kvöld.

Stjarnan var með eins marks forystu í hálfleik, 15:14, og var leikurinn í járnum þangað til um fimm mínútum fyrir leikslok. Þá, í stöðunni 31:30, tókst heimamönnum að skora fjögur mörk í röð til að gera út um einvígið. Gestirnir svöruðu með þremur síðustu mörkum leiksins þegar úrslitin voru ráðin. Blær Hinriksson átti stórleik fyrir Mosfellinga og skoraði tæplega helming marka þeirra eða 14 talsins úr 18 skotum.

Starri Friðriksson var markahæstur Stjörnunnar með níu mörk og Björgvin Hólmgeirsson var honum næstur með átta.

Garðbæingar eru sem stendur í 4. sæti en þeir fóru upp fyrir Fram, Selfoss, Val, KA og ÍBV með þessum sigri í 16. umferðinni. Öll þessi lið eiga þó leik til góða og spila á morgun en þar mætast meðal annars Fram og ÍBV innbyrðis. Afturelding er hins vegar áfram í 3. sæti með 19 stig, fjórum á eftir FH í öðru sætinu og einu á undan Stjörnunni sem er með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert