Haukar sýndu mátt sinn og megin

Ólafur Ægir Ólafsson átti góðan leik í dag.
Ólafur Ægir Ólafsson átti góðan leik í dag. Eggert Jóhannesson

Haukar unnu gífurlega öruggan 32:23 sigur gegn KA á Ásvöllum í Olísdeildinni í handknattleik karla í dag. Haukar voru sjö mörkum yfir í hálfleik og sigurinn því aldrei í hættu.

Haukar byrjuðu leikinn enda af gífurlegum krafti og voru komnir í 4:0 eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Gestirnir í KA komust ekki nær en að vera fjórum mörkum undir í fyrri hálfleiknum.

Varnarleikur KA-manna var í miklum ólestri og fékkst engin markvarsla fyrr en seint og síðar meir í fyrri hálfleiknum, eða eftir 20 mínútur. Varnarleikur Hauka var hins vegar fyrsta flokks og varð þess valdandi að KA-menn töpuðu boltanum trekk í trekk.

Auk þess áttu Norðanmenn engin svör við frábærum sóknarleik Hauka, þar sem hægri skyttan Ólafur Ægir Ólafsson var fremstur í flokki með sex mörk úr sex skotum í fyrri hálfleiknum.

Eftir að Haukar höfðu náð 11:5 forystu minnkuðu KA-menn muninn aftur niður í fjögur mörk, 11:7, en eftir það settu Haukar aftur í fluggír og komust mest í átta marka forystu, 17:9. KA skoraði síðasta mark fyrri hálfleiksins og staðan því 17:10 í hálfleik.

Í síðari hálfleik reyndist skaðinn skeður fyrir KA-menn. Haukar héldu góðum dampi og bættu bara í.

Andri Sigmarsson Scheving kom sterkur inn í mark Hauka í síðari hálfleiknum eftir að Björgvin Páll Gústavsson hafði spilað þann fyrri. Varði Andri 9 skot í hálfleiknum og var með rétt tæplega 41 prósent markvörslu, auk þess að skora tvö mörk með því að kasta yfir allan völlinn og í tómt markið.

Haukar unnu að lokum níu marka sigur, 32:23, og eru nú með fjögurra stiga forskot á nágranna sína og erkifjendur í FH á toppi Olísdeildarinnar.

Í liði KA var Árni Bragi Eyjólfsson öflugur, sérstaklega í síðari hálfleik, og endaði markahæstur í leiknum með níu mörk.

Markahæstur í liði Hauka var Orri Freyr Þorkelsson með sjö mörk.

Haukar 32:23 KA opna loka
60. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með afar öruggum níu marka sigri Hauka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert