Sárastur yfir skorti á baráttuanda

Jónatan Magnússon, þjálfari KA.
Jónatan Magnússon, þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var ekki sérlega ánægður með frammistöðu sinna manna eftir að liðið tapaði 22:31 gegn Haukum í Olísdeild karla í handknattleik á Ásvöllum í dag.

„Mér fannst við vera mjög langt frá því sem við ætluðum okkur að gera. Ég get svo sem ekki sagt til um hvað veldur því. Þeir settu tóninn bara strax í byrjun, við vorum ekki nálægt þeim, töpuðum öllum einvígjum, sóknarlega. Mér fannst við vera teknir mjög illa á líkamlega þættinum og hörku. Mér fannst við ekki alveg ná að svara því,“ sagði Jónatan í samtali við mbl.is eftir leik.

Langt fram eftir fyrri hálfleik átti liðið í erfiðleikum í vörninni og sömuleiðis fékkst engin markvarsla. „Við ætluðum okkur að spila 6-0-vörn og ætluðum svo að reyna að vera þéttir en það gerðist ekki. Skotin og færin sem þeir fá hérna langt fram eftir leik eru í rauninni bara færi sem Haukarnir taka alltaf. Það var engin hjálp frá vörninni fyrir markvörsluna. Það er það sem gerist.

Við fórum svo í 3-2-1-vörn og þá var sama vandamál til staðar en framar á vellinum opnuðust aðeins aðrar stöður. Við eiginlega töpuðum á öllum vígstöðvum. Mér fannst bara vanta meira framlag frá öllum leikmönnum. Þegar það er svoleiðis eigum við ekki séns á að fá nokkuð úr leik á móti Haukum,“ útskýrði hann.

Jónatan kvaðst ekki geta tekið neitt jákvætt úr leiknum. „Nei. Ég get ekki séð hvað það ætti að vera. Það var frekar fátt sem gekk upp af því sem við ætluðum okkur, þannig að nei. Við vorum í rauninni bara langt frá því.

Það sem við lögðum upp með gekk ekki og þá er bara spurning hvort það hafi kannski verið uppleggið frá mér. Ég þarf líka að skoða það. Mér fannst við ekki vera góðir og þá þarf ég að fara í það að skoða það af því að það var margt mjög gott í síðasta leik á fimmtudaginn,“ sagði hann, en KA vann þá góðan 37:33-útisigur gegn Gróttu.

„Héldum að við værum með strategíuna“

Jónatan sagðist hafa talið að þjálfaraliðið hefði betri hugmynd um hvernig ætti að standa í Haukum en það hefði ekki gengið eftir í dag. Svekktastur var hann þó með skort á baráttu í KA-liðinu.

„Síðast þegar við spiluðum á móti Haukum spiluðum við mjög vel þannig að við héldum að við værum með strategíuna. En þegar maður vinnur ekki návígi og er undir í baráttu, það er það sem ég er núna sárastur yfir af því að það hefur aldrei verið neitt vesen hjá KA, við höfum alltaf verið með mikinn baráttuanda en það vantaði núna og það er ég svekktur með,“ sagði hann.

Jónatan sagði liðið áfram stefna ótrautt á að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. „Já, við erum í þessum pakka og hver leikur verður ofboðslega stór og mikilvægur. Við eigum eftir að spila við þessi lið í kringum okkur í næstu leikjum. Við eigum ÍR næst.

Eins og við vorum glaðir á fimmtudaginn þá höfðum við stuttan tíma til að vera ánægðir með þann sigur. En við fáum reyndar tvær vikur núna, það er fínt á einhvern hátt af því að við ákváðum að fresta þessum næstu leikjum en þá fáum við þétt prógramm þegar við byrjum aftur og þá verðum við bara að vera klárir, nota tímann vel fram að því.“

KA fékk tveimur næstu leikjum sínum frestað þar sem færeysku landsliðsmennirnir tveir í þeirra röðum, Nicholas Satchwell og Allan Norðberg, eiga mikilvæga landsleiki með liðinu á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert