Sneri aftur á völlinn eftir 19 mánuði

Gestur Ólafur Ingvarsson í leik með Aftureldingu árið 2017.
Gestur Ólafur Ingvarsson í leik með Aftureldingu árið 2017. Kristinn Magnússon

Gestur Ólafur Ingvarsson, hægri hornamaður Aftureldingar, lék sinn fyrsta leik í Olís-deildinni í handknattleik í tæpa 19 mánuði þegar hann kom við sögu í 33:35 tapi gegn Stjörnunni í Garðabænum í gærkvöldi.

Handbolti.is greinir frá. Þar segir að Gestur Ólafur hafi slitið krossband í hné í viðureign Aftureldingar og FH í Kaplakrika 29. september 2019.

Hann lék þar með ekki meira með Aftureldingu á síðasta tímabili vegna meiðslanna.

Í frétt Handbolta.is segir einnig að Gestur Ólafur hafi flutt til Danmerkur síðastliðið sumar, þar sem hann æfði með B-deildarliðinu Skovbakken í Árósum í vetur en skipti þó ekki formlega yfir til liðsins.

Hann flutti svo aftur heim nýverið og hóf æfingar að nýju með Aftureldingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert