Sýndum virkilega sterka liðsheild

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var hæstánægður með frammistöðu sinna manna eftir öruggan níu marka sigur gegn KA í Olísdeildinni í handknattleik karla í dag. Haukar eru áfram á toppi deildarinnar, nú fjórum stigum á undan FH í öðru sætinu.

„Ég er bara mjög ánægður með hvernig við komum inn í leikinn. Við spiluðum mjög sterka vörn, við vorum beittir í hraðaupphlaupunum í seinni bylgjunni, spiluðum vel úr því. Við vorum að finna góðar lausnir líka sóknarlega og vorum virkilega beittir, þannig að þetta var bara mjög gott,“ sagði Aron í samtali við mbl.is að leik loknum.

Haukar byrjuðu leikinn, sem endaði með 31:22 sigri, af gífurlegum krafti og slógu KA-menn snemma út af laginu. Var lagt upp með að keyra á gestina allt frá upphafi?

„Það var í upplegginu okkar að spila góða vörn og spila þessa seinni bylgju eins og við spiluðum hana. Við breyttum henni aðeins frá því í síðasta leik, hvernig við höfum verið að spila hana, og það kom mjög vel út í dag,“ sagði hann.

Aron sagði vitanlega alltaf hægt að bæta eitthvað í leik Hauka en að hann væri sérstaklega ánægður með jafnt og gott framlag liðsheildarinnar í dag.

„Það eru alltaf einhver atriði sem maður getur bætt. Maður er líka fljótur að finna eitthvað bæði varnar- og sóknarlega til að laga. En það er bara þannig að þetta er leikur mistaka og þetta snýst um að við séum að ná að framkvæma það sem við viljum.

Það eru auðvitað nokkur atriði sem við þurfum að laga en heilt yfir var ég bara ánægður með frammistöðu liðsins og framlag liðsheildarinnar. Við vorum að sýna virkilega sterka liðsheild, við erum að dreifa leiktímanum vel og það voru allir að leggja sitt af mörkum þannig að það var mjög gott,“ sagði Aron að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert