Þór Akureyri vann Val 25:22 í Olís-deild karla í handknattleik í dag og þar með er hlaupin aukin spenna í baráttuna um að halda sæti í deildinni.
Þór er í næstneðsta sæti og er tveimur stigum á eftir Gróttu sem er sæti ofar. Valur er í 7. sæti með 17 stig. Sigurinn var sannfærandi því Þór var með fimm marka forskot um tíma í síðari hálfleik.
Ihor Kopyshynskyi átti stórleik fyrir Þór en hann skoraði 9/3 mörk og var með frábæra skotnýtingu en hann skaut tíu sinnum á markið. Jovan Kukobat varði 17 skot í marki Þórs. Róbert Aron Hostert var markahæstur hjá Val með fjögur mörk.
ÍBV náði í tvö stig í Safamýri með sigri gegn Fram 30:29. ÍBV er í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig eins og Afturelding sem er í 4. sæti. Fram er með 16 stig í 9. sæti og er í mikilli baráttu um að komast í úrslitakeppnina.
Hákon Daði Styrmisson skoraði 9/4 mörk fyrir IBV og Kári Kristjánsson skoraði átta mörk og var með 100% nýtingu. Þorgrímur Smári Ólafsson skoraði fimm mörk fyrir Fram.
Selfoss vann ÍR 28:23 á Selfossi en Selfyssingar eru með 18 stig í 5. sæti. ÍR er eins og áður án stiga á botninum.
Atli Ævar Ingólfsson og Hergeir Grímsson skoruðu sjö mörk hvor fyrir Selfoss. Hjá ÍR-ingum var Dagur Sverrir Kristjánsson markahæstur með sjö mörk.