Handknattleiksmaðurinn Ásgeir Snær Vignisson er handarbrotinn og verður því ekki meira með liði sínu ÍBV á yfirstandandi tímabili.
Handbolti.is greinir frá. Ásgeir Snær hefur misst af síðustu leikjum liðsins af þessum sökum. Hann sneri aftur til keppni í lok janúar eftir að hafa farið úr axlarlið í byrjun október.
Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, staðfesti við Handbolta.is að stefnan sé tekin á að Ásgeir Snær mæti ferskur til leiks í byrjun næsta tímabils.
ÍBV er sem stendur í 3. sæti Olísdeildarinnar, en þó munar aðeins þremur stigum á liðinu og Fram sem er í 9. sæti deildarinnar.