Daníel Þór Ingason, landsliðsmaður í handknattleik, hefur samið við þýska félagið Balingen um að leika með því á næsta keppnistímabili, en hann er að ljúka sínu öðru tímabili með Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni.
Daníel er 25 ára gamall, leikur sem rétthent skytta en er auk þess öflugur varnarmaður og er fyrst og fremst í því hlutverki í íslenska landsliðinu. Hann lék með Val og Haukum á árunum 2013 til 2019.
Jens Bürkle, yfirþjálfari Balingen, segir á heimasíðu félagsins að félagið sé að fá heilsteyptan leikmann sem muni bæði styrkja sóknar- og varnarleik liðsins.
Daníel er með íslenska landsliðinu í Tel Aviv og leikur sinn 32. landsleik síðar í dag þegar Ísland mætir Ísrael í undankeppni EM.
Hann verður liðsfélagi Odds Gretarssonar, samherja í landsliðinu, hjá Balingen. Ekki er öruggt í hvaða deild þeir félagar spila á næsta tímabili. Balingen er sem stendur í 16. sæti, einu sæti og fjórum stigum fyrir ofan fallsæti í þýsku 1. deildinni, efstu deildinni þar í landi.