„Gaman þegar svona gerist“

Ágúst Elí Björgvinsson fór á kostum í marki Íslands í …
Ágúst Elí Björgvinsson fór á kostum í marki Íslands í síðari hálfleik í leiknum gegn Ísrael í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Þetta var góður skyldusigur og við héldum áfram að berjast allan tímann þrátt fyrir að þetta væri orðið svolítið létt og einfalt. Við héldum markmiðinu okkar um að halda áfram að berjast og gerðum það vel.“

Þetta sagði Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður íslenska landsliðsins og danska úrvalsdeildarliðsins Kolding, í samtali við mbl.is eftir 30:20 sigur íslenska liðsins gegn Ísrael í undankeppni EM í kvöld.

Ágúst Elí átti frábæra innkomu í síðari hálfleiknum og varði átta af 13 skotum sem hann fékk á sig og var því með 61,5 prósent markvörslu. Hann var vitanlega ánægður með eigin frammistöðu.

 „Já, það er gaman þegar svona gerist. Við vorum eitthvað í undirtölu á þessum tíma. Þá hleyptum við bara vinstri hornamanninum inn og ég veit ekki hversu mörgum skotum hann klúðraði, þetta var góð taktík hjá okkur. Svo vorum við að spila hörkuvörn þarna á meðan, síðasta kortérið. Svo var mikið af erfiðum pressuskotum,“ sagði hann.

Ágúst Elí Björgvinsson ræðir málin við Viktor Gísla Hallgrímsson.
Ágúst Elí Björgvinsson ræðir málin við Viktor Gísla Hallgrímsson. Ljósmynd/HSÍ

Viktor Gísli Hallgrímsson hefur verið að byrja leiki landsliðsins að undanförnu en Ágúst Elí spilar þó alltaf talsvert mikið. Hann kveðst því sáttur við hlutverk sitt hjá landsliðinu.

„Já. Ég er landsliðsmaður þannig að ég er mjög sáttur hvort sem ég byrja inni á eða ekki. Það er ekki mitt að velja. Hvort sem ég byrja inni á eða ekki þá reyni ég að gera mitt besta, hvort sem það er að verja bolta eða hjálpa Viktori að verja sína bolta.“

Ætlum að vinna riðilinn

Fram undan eru síðustu tveir leikir Íslands í riðli 4 í undankeppni EM, gegn Litháen ytra og Ísrael heima. Ágúst Elí segir liðið ætla sér að vinna riðilinn og því sé markmiðið skýrt í leikjunum tveimur.

„Við komum inn í þá leiki með sömu baráttu og sama hugarfari. Við erum með það markmið að vinna riðilinn og þá þurfum við að vinna þessa tvo leiki.

Litháarnir hvíldu sína lykilleikmenn í leik sínum á móti Ísrael í gær þannig að þeir koma ferskir inn í leikinn á fimmtudaginn. Því erum við að búast við enn þá erfiðari leik og þurfum að undirbúa okkur vel og jafnvel að taka baráttuna upp á aðeins hærra stig,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert