Ómar Ingi Magnússon, hægri skytta íslenska landsliðsins og þýska 1. deildarliðsins Magdeburg, var á meðal markahæstu manna þegar Ísland vann öruggan 10 marka útisigur gegn Ísrael í undankeppni EM í kvöld.
„Við gerðum það sem við áttum að gera. Við byrjuðum vel, þetta var flottur fyrri hálfleikur og svo vorum við bara fínir í seinni hálfleik,“ sagði Ómar Ingi í samtali við mbl.is að leik loknum.
Hann lék fyrri hálfleikinn og skoraði fimm mörk, þar af fjögur úr vítaköstum. Ómar Ingi kvaðst nokkuð sáttur við eigin frammistöðu.
„Þetta var bara ágætt. Það er fullt af hlutum sem hægt er að gera betur. Það voru einhver atriði hér og þar sem hægt er að laga eins og alltaf er.“
Sem áður segir spilaði Ómar Ingi fyrri hálfleikinn og lék Viggó Kristjánsson síðari hálfleikinn. Íslenska liðið er því ekki á flæðiskeri statt með örvhentar skyttur og sagði Ómar Ingi það vera góðs viti að góð samkeppni sé til staðar hjá liðinu.
„Ég bara reyni að sýna mitt besta og nýta allt sem ég get. Þetta snýst bara um að spila vel þegar maður er inni á og það gildir fyrir alla, þannig að þú býrð svolítið til þitt eigið hlutverk.“
Með sigrinum gegn Ísrael er Ísland svo gott sem komið á EM. Ómar Ingi sagði liðið þó ekkert hugsa um það, einungis um að sigra Litháen í næsta leik á fimmtudaginn.
„Leikurinn við Litháen er algjörlega „krúsjal“ leikur. Við þurfum bara að mæta klárir og klára það. Það er það eina í stöðunni. Við setjum bara fullan fókus á það núna. Við ætlum að vinna og erum ekki að spá í það,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.
Ísland á eftir leikinn við Litháen ytra og svo Ísrael á heimavelli, og þótt ansi margt þyrfti að fara úrskeiðis til þess að íslenska liðið kæmist ekki á EM er mikilvægt að vinna báða leikina upp á að vinna riðil 4 í undankeppninni og vera þar með í betri styrkleikaflokki á EM.