Ísland ekki í vandræðum með Ísrael

Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/HSÍ

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik gerði góða ferð til Tel Aviv í Ísrael þegar það vann heimamenn örugglega, 30:20 í undankeppni EM í kvöld. Íslenska liðið lék afar vel og var sigurinn aldrei í hættu.

Íslenska liðið var fljótt að taka öll völd á vellinum og hleypti ísraelska liðinu ekki nálægt sér. Það næsta sem Ísrael komst var þegar liðið var tveimur mörkum undir, 3:1, í upphafi leiks.

Eftir það var Ísland með tögl og hagldir í leiknum þar sem hér um bil allt var að smella. Vörnin var sterk, Viktor Gísli var frábær í markinu og varði átta skot í fyrri hálfleiknum. Sóknarleikurinn var svo góður og einkenndist af miklu öryggi mestan part hálfleiksins.

Íslenska liðið gaf enda bara í og náði mest níu marka forystu undir lok hálfleiksins, 17:8. Ísrael skoraði svo síðasta mark fyrri hálfleiksins og staðan því 17:9 í hálfleik.

Öllu meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleiknum, sérstaklega fyrri hluta hans, og skiptust þau á að skora.

Þegar leið á hálfleikinn herti íslenska liðið þó aðeins tökin og vann að lokum þægilegan 10 marka sigur, 30:20.

Leiktími dreifðist vel á milli leikmanna og sama er að segja um markaskorun en markahæstir í íslenska liðinu voru þeir Viggó Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Elvar Örn Jónsson, allir með fimm mörk.

Viggó skoraði öll mörk sín í síðari hálfleiknum og Ómar Ingi skoraði öll sín mörk í þeim fyrri, enda skiptu örvhentu skytturnar knáu hálfleikjunum á milli sín.

Viktor Gísli varði alls 11 skot og var með rúmlega 42 prósent markvörslu.

Ágúst Elí Björgvinsson tók við af honum í markinu eftir um 40 mínútna leik og fór á kostum, varði átta af 13 skotum sem hann fékk á sig og endaði því með 61,5 prósent markvörslu.

Eftir  fjórar umferðir af sex eru Ísland og Portúgal með 6 stig hvort en Ísrael og Litháen með 2 stig hvort. Það er því nánast öruggt að Ísland og Portúgal fara á EM en afar óvænt úrslit þurfa að koma til í tveimur síðustu umferðunum á fimmtudag og sunnudag til að koma í veg fyrir það.

Íslenska liðið fer því með gott veganesti í síðustu tvo leiki riðilsins sem fara fram næstkomandi fimmtudag gegn Litháen þar í landi og svo aftur gegn Ísrael í lokaleik riðilsins á Ásvöllum næstkomandi sunnudag.

Ísrael 20:30 Ísland opna loka
60. mín. Ágúst Elí Björgvinsson (Ísland) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert