Jafntefli í endurtekna leiknum

Hulda Bryndís Tryggvadóttir sækir að vörn Stjörnunnar í Garðabænum í …
Hulda Bryndís Tryggvadóttir sækir að vörn Stjörnunnar í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan og KA/Þór skildu jöfn, 25:25, í Garðabæ í endurteknum leik liðanna úr 9. umferðinni í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni.

Liðin mættust í TM-höllinni í febrúar síðastliðnum en vegna mistaka á ritaraborðinu komst áfrýjunardómstóll Handknattleikssambands Íslands að því að leikurinn skyldi leikinn aftur. KA/Þór bar sigur úr býtum, 27:26, en í ljós kom að norðankonur fengu aukamark skráð á sig og að liðin hefðu í raun bæði skorað 26 mörk. Jafntefli varð svo einmitt niðurstaðan í endurteknum leiknum í kvöld.

Gestirnir úr KA/Þór hófu leikinn af krafti í kvöld og höfðu fimm marka forystu í hálfleik, 14:9, en heimakonur færðu sig upp á skaftið eftir hlé. Stjarnan saxaði jafnt og þétt á forystuna og Helena Rut Örvarsdóttir jafnaði svo metin í 22:22 á 54. mínútu. Úr varð svo hnífjafn endasprettur, gestirnir komust í 25:23 forystu en síðustu tvö mörkin voru heimakvenna. 

Helena Rut Örvarsdóttir, sem skoraði fimm mörk í leiknum, minnkaði muninn og Eva Björk Davíðsdóttir kreisti fram jöfnunarmark í lokin en hún var markahæst allra með 11 mörk. Ásdís Guðmundsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir voru markahæstar í liði KA/Þórs með fimm mörk hvor.

Norðankonur jafna við Fram á toppi deildarinnar en bæði lið eru með 18 stig eftir 12 umferðir. Stjarnan er með 11 stig, eins og Haukar, í 5. og 6. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert