Hollenska karlalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Erlings Richardssonar, er skrefi nær sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2022 eftir öruggan útisigur gegn Tyrkjum í Eskisehir í dag.
Lokatölur urðu 32:24, Hollendingum í hag, eftir að þeir voru 15:12 yfir í hálfleik. Alec Smit var markahæstur Hollendinga með 6 mörk og Kay Smits skoraði fimm.
Hollendingar eru komnir með 7 stig í 5. riðli, eins og Slóvenar sem mæta Pólverjum á eftir en Pólland er með 4 stig í þriðja sætinu. Vinni Slóvenar þann leik eru Hollendingar öruggir með EM-sætið.
Uppfært kl. 19.35
Pólland vann Slóveníu 27:26 og þar með eru Slóvenía og Holland með 7 stig en Pólland 6 stig og Holland og Pólland eiga eftir að mætast í hreinum úrslitaleik um EM-sætið á sunnudaginn. Holland gæti eftir sem áður komist áfram ef liðið endar í þriðja sæti riðilsins.