Varnarjaxlinn Ýmir Örn Gíslason og liðsfélagar hans í landsliðinu í handknattleik lentu í vandræðum gegn klókum leikstjórnanda Litháens í dag Aidenas Malasinskas. Svo fór að Litháen vann Ísland 29:27 í undankeppni EM.
Malasinskas skoraði 12 mörk og gaf fjöldan allan af stoðsendingum til dæmis inn á línunamennina.
„Já við áttum erfitt með hann í dag. Hann var góður og við vorum ekki nægilega vel á tánum. Vörnin slitnaði of mikið í sundur og ef við náum ekki upp góðri vörn þá verður erfiðara fyrir markvörðinn að athafna sig. Það helst svolítið í hendur. Ef markvarslan kemur ekki þá koma hraðaupphlaupin ekki. Þetta gekk ekki upp í dag og við vorum bara lélegir,“ sagði Ýmir og hann sagðist ekki sjá marga ljósa punkta í frammistöðu íslenska liðsins í dag.
„Svona stuttu eftir leik man ég ekki eftir neinu sem gekk sérstaklega vel. Þetta var brekka og við gerðum okkur mjög erfitt fyrir með því að lenda sex mörkum undir í fyrri hálfleik. Það var full mikið. Þessi frammistaða var afskaplega döpur það er ekki flóknara en það. Við vorum bara afskaplega lélegir og ég ætla ekki að reyna að afsaka það,“ sagði Ýmir ennfremur þegar mbl.is ræddi við hann.