Grótta átti ekki í teljandi vandræðum með ÍR þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Austurbergi í Breiðholti í kvöld.
Leiknum lauk með sex marka sigri Gróttu, 32:26, en Daníel Örn Griffin var atkvæðamestur Seltirninga með átta mörk.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 15:14, Gróttu í vil, í hálfleik. Seltirningar voru hins vegar mun sterkari í síðari hálfleik og unnu sannfærandi sigur í leikslok.
Andri Heimir Friðriksson var markahæstur ÍR-inga með átta mörk en Stefán Huldar Stefánsson í marki Gróttu átti stórleik og varði sautján skot í markinu.
Grótta fer með sigrinum upp í 12 stig og er nú fjórum stigum frá fallsæti en ÍR-ingar eru sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar án stiga og fallnir úr deildinni.