Ótrúlegar lokamínútur í Hafnarfirði

Arnar Freyr Ársælsson reynir skot að marki Garðbæinga í Hafnarfirðinum …
Arnar Freyr Ársælsson reynir skot að marki Garðbæinga í Hafnarfirðinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Örn Sindrason reyndist hetja FH þegar liðið fékk Stjörnuna í heimsókn í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld.

Leiknum lauk með 30:30-jafntefli en Einar Örn skoraði jöfnunarmark Hafnfirðinga á lokasekúndum leiksins.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en FH leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 16:14. Garðbæingar náðu yfirhöndinni þegar tíu mínútur voru til leiksloka og leiddi með þremur mörkum, 26:23.

FH-ingum tókst að jafna metin en þegar tvær mínútur voru til leiksloka kom Pétur Árni Hauksson Stjörnunni yfir, 30:29. FH-ingar brunuðu upp í sókn en skot Einars Rafn Eiðssonar var varið af varnarmönnum Stjörnunnar.

Þegar fimm sekúndur voru til leiksloka tóku Garðbæingar leikhlé. Pétur Árni Hauksson kastaði svo boltanum í leik en Arnar Freyr Ársælsson komst inn í sendinguna, sendi á Einar Örn sem skoraði utan teigs og jafntefli því niðurstaðan.

Pétur Árni Hauksson og Björgvin Hólmgeirsson voru markahæstir Garðbæinga með átta mörk en Ásbjörn Friðriksson var atkvæðamestur í liði FH með sjö mörk.

FH er með 24 stig í öðru sæti deildarinnar en Stjarnan er í fimmta sætinu með 19 stig.

Hergeir Grímsson fór mikinn fyrir Selfyssinga í Vestmannaeyjum.
Hergeir Grímsson fór mikinn fyrir Selfyssinga í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Selfyssingar gerðu góða ferð til Vestmannaeyja og unnu eins marks sigur í jöfnum leik, 27:26.

Selfyssingar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12, og náðu mest fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik, 26:22.

Selfyssingar leiddu 27:24-þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en ÍBV tókst að minnka muninn í eitt mark. 

Sveinn Jose Rivera fékk dauðafæri til þess að jafna metin fyrir Eyjamenn á lokasekúndinni en hitti ekki markið.

Hergeir Grímsson átti stórleik fyrir Selfyssinga og skoraði míu mörk og Einar Sverrisson skoraði sjö mörk.

Hákon Daði Styrmisson var markahæstur Eyjamanna með tólf mörk, þarf af sjö af vítalínunni.

Selfoss fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 20 stig en ÍBV er í fjórða sætinu með 19 stig.

Orri Freyr Þorkelsson skoraði sjö mörk á Akureyri.
Orri Freyr Þorkelsson skoraði sjö mörk á Akureyri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þá skoraði Orri Freyr Þorkelsson sjö mörk fyrir Hauka þegar liðið vann stórsigur gegn Þór frá Akureyri í Höllinni á Akureyri.

Leiknum lauk með 36:17-sigri Hauka en staðan í hálfleik var 18:9, Haukum í vil.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði sex mörk fyrir Hauka en Karolis Stropus var atkvæðamestur Þórsara með fimm mörk.

Haukar eru með 29 stig í efsta sæti deildarinnar en Þórsarar eru í ellefta sætinu með 8 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert