Úrslitin ráðast í lokaumferðinni

Aldís Ásta Heimisdóttir átti stórleik fyrir KA/Þór.
Aldís Ásta Heimisdóttir átti stórleik fyrir KA/Þór. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram og KA/Þór eru áfram jöfn að stigum í efstu sætum úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildarinnar, eftir sigra í dag.

KA/Þór vann afar sterkan 21:19-sigur gegn Val í KA-heimilinu á Akureyri þar sem staðan var 11:8, KA/Þór í vil, í hálfleik.

Matea Lonac átti stórleik í marki Akureyringa, varði tólf skot og var með 40% markvörslu, en Aldís Ásta Heimisdóttir var markahæst með sjö mörk.

Hjá Val var Lovísa Thompson atkvæðamest með sex mörk og Thea Imani Sturludóttir skoraði fimm mörk.

Þá skoraði Þórey Rósa Stefánsdóttir sjö mörk fyrir Fram þegar liðið vann stórsigur gegn FH í Kaplakrika í Hafnarfirði, 35:20, en Sara Sif Helgadóttir átti mjög góðan leik í marki Fram, varði níu skot og var með 56% markvörslu.

Fram og KA/Þór eru með 20 stig í efstu sætum deildarinnar en liðin mætast í Safamýri í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni um deildarbikarinn.

Helena Rut Örvarsdóttir fór á kostum í liði Stjörnunnar.
Helena Rut Örvarsdóttir fór á kostum í liði Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá vann Stjarnan afar þýðingarmikinn 28:26-sigur gegn ÍBV í TM-höllinni í Garðabæ en bæði lið eru í harðri baráttu í efri hluta deildarinnar.

Helena Rut Örvarsdóttir átti stórleik fyrir Stjörnuna og skoraði níu mörk en hjá ÍBV var Harpa Valey Gylfadóttir markahæst með sjö mörk.

Stjarnan fer með sigrinum í 13 stig og er áfram í fimmta sæti deildarinnar en ÍBV er í fjórða sætinu með 14 stig.

Berta Rut Harðardóttir skoraði níu mörk fyrir Hauka þegar liðið vann þriggja marka sigur gegn HK í Kórnum í Kópavogi, 30:27.

Sigríður Hauksdóttir fór á kostum í liði HK og skoraði tólf mörk, þar af fjögur úr vítaskotum, en það dugði ekki til.

Haukar fara með sigrinum upp í 13 stig, líkt og Stjarnan, og eru í sjötti sæti deildarinnar.

HK er áfram með 9 stig í sjöunda sætinu og á leið í umspil um laust sæti í efstu deild að ári þar sem liðið mætir liðinu sem vinnur umspil 1. deildarinnar um laust sæti í úrvalsdeildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert