Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, þurfti að fórna því að vera viðstaddur fermingu dóttur sinnar í dag vegna sóttvarnaráðstafana í kringum verkefni landsliðsins í undankeppni EM.
Guðmundur hafði orð á þessu þegar mbl.is tók hann tali eftir leik Íslands og Ísraels á Ásvöllum í dag. Ísland sigraði 39:29 og lauk þar með bæði þriggja leikja hrinu liðsins en jafnframt undankeppninni fyrir EM 2022.
Blaðamaður spurði Guðmund hvort ekki væri léttir að undankeppninni væri lokið og tekist hefði að ljúka henni í miðjum heimsfaraldri.
„Jú þetta er góður punktur hjá þér. Ég er guðslifandi feginn að þessari undankeppni sé lokið og vonandi verður þetta ástand fljótlega yfirstaðið. Það er miklu meira í kringum þetta en fólk gerir sér grein fyrir. Þetta er orðið löng törn hjá landsliðinu sem af er þessu ári. Undankeppnin og lokakeppni HM í janúar. Við erum í einangrun. Sem dæmi þá er ég búinn að fara sex sinnum í Covid-próf á átta dögum. Við erum lokaðir inni og komumst hvergi. Við erum núna hér heima en getum ekki hitt fjölskyldur okkar. Það var verið að ferma dóttur mína í dag. Ég get ekki verið viðstaddur þá athöfn né kaffisamsæti í fjölskyldunni. Þetta reynir auðvitað á okkur alla. Það er ekki auðvelt að lýsa því með orðum og við munum kannski geta séð það betur eftir á en við höfum ítrekað verið settir í þá stöðu að ferðast í miðjum heimsfaraldri. Hafandi áhyggjur af því að smitast af þessari veiru og búa við þær aðstæður að geta varla farið út í göngutúr. Þetta er bara meira en að segja það. Ég vil því þakka leikmönnum fyrir hvað þeir hafa lagt á sig og þakka HSÍ fyrir að skipuleggja þetta allt,“ sagði Guðmundur á Ásvöllum í dag.
Guðmundur segist stoltur af því að Ísland sé komið á EM en neitar því ekki að hann hefði viljað vinna riðilinn. 2. sætið í riðli 4 varð niðurstaðan en tapið í Litháen á dögunum gerði það að verkum að Portúgal vann riðilinn og fer einnig á EM.
„Þetta er ekki sjálfgefið og þess vegna er ég mjög stoltur af árangri liðsins. Við hefðum viljað vinna riðilinn en við fórum hins vegar í gríðarlega erfitt ferðalag fram og til baka í leikina gegn Ísrael og Litháen á meðan Litháar fengu tækifæri til að stilla þessu upp eins og þeir vildu. Við fengum enga æfingu í Ísrael og aðeins klukkutímaæfingu í Litháen eftir mjög erfitt ferðalag. Vissulega situr í mér að hafa tapað í Litháen því ég hefði viljað vinna riðilinn. En auðvitað fór það eins og það fór. Við erum komnir á EM og það eru spennandi tímar fram undan.
Það sem er einnig jákvætt er að ég gat gefið fullt af leikmönnum tækifæri í báðum leikjunum á móti Ísrael. Ég gat rúllað á liðunum og tekið stöðuna á fullt af leikmönnum. Sveinn Jóhannsson stóð sig mjög vel svo ég taki dæmi. Liðið stóð sig vel í dag og við sýndum fagmennsku. Þú sérð það sjálfur að um leið og þú slakar eitthvað á á móti svona liði þá geturðu lent í mjög miklum vandræðum. Það má ekki og þannig er þetta orðið í flestum íþróttum. Það er ekkert gefins,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson í samtali við mbl.is.