Afturelding í efstu deild á ný

Afturelding spilar í Olísdeild kvenna í handknattleik á næsta ári.
Afturelding spilar í Olísdeild kvenna í handknattleik á næsta ári. Árni Sæberg

Kvennalið Aftureldingar í handknattleik tryggði sér í gær sæti á meðal þeirra bestu á ný í úrvalsdeildinni, þegar liðið vann 23:21 útisigur á Fjölni/Fylki í 1. deild kvenna, Grill66-deildinni.

Afturelding féll úr úrvalsdeildinni í fyrra og var stoppið því stutt í næstefstu deildinni.

Afturelding er þegar einni umferð er ólokið í þriðja sæti Grill66-deildarinnar og getur ekki endað neðar.

Þar sem liðin tvö fyrir ofan Aftureldingu eru ungmennalið Fram og Vals geta þau ekki farið upp um deild. Kemur það því í hlut Mosfellinga að vera eina liðið sem fer beint upp úr Grill66-deildinni í ár.

Næstu þrjú lið fara í umspil ásamt HK sem endar í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar.

Ungmennalið Fram er deildarmeistarar Grill66-deildarinnar í ár og fær liðið titilinn skráðan og bikarinn afhentan þó liðið megi ekki fara upp um deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert