Hákon Daði Styrmisson skoraði sjö mörk fyrir ÍBV þegar liðið heimsótti Gróttu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Hertz-höllina á Seltjarnarnesi í 18. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með fjögurra marka sigri ÍBV, 32:28, en Eyjamenn leiddu 16:14 í hálfleik.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik sigldu Eyjamenn hægt og rólega fram úr Seltirningum og var munurinn á liðunum mest fimm mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 28:23.
Björn Viðar Björnsson varði fimmtán skot í marki Gróttu og var með 35% markvörslu en hjá Gróttu skoruðu þeir Birgir Steinn Jónsson, Daníel Örn Griffin og Satoru Goto sex mörk hver.
ÍBV fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 21 stig og upp fyrir Selfoss en Grótta er áfram í tíunda sæti deildarinnar með 12 stig, fjórum stigum frá fallsæti.