Króatíski markvörðurinn Matea Lonac er búin að framlengja samning við handknattleiksdeild KA/Þórs og mun leika með liðinu næstu tvö tímabil.
Handbolti.is greinir frá. Lonac er á sínu öðru tímabili með norðankonum.
Lonac hefur spilað frábærlega í marki KA/Þórs í úrvalsdeild kvenna, Olísdeildinni, á tímabilinu og varið tæplega 38 prósent þeirra skota sem hafa komið á mark hennar.
KA/Þór er í efsta sæti deildarinnar með 20 stig þegar einni umferð er ólokið.
Á laugardaginn mætir liðið Fram, sem er einnig með 20 stig í öðru sætinu, í hreinum úrslitaleik í Safamýri um hvort liðið verður deildarmeistari og fær heimaleikjarétt í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.